Ernir.net home

Ernir writes

on computers and society, apparently.

Tölvunarfræðinám er ekki starfsnám í forritun

(Upprunalegur Facebook-póstur)

Tölvunarfræði er vinsælt fag þessi árin. Ég geri ráð fyrir því að núna, þegar fresturinn til að sækja um grunnnám við Háskóla Íslands er að renna út, séu nokkrir sem eru óákveðnir varðandi umsókn. Því langar mig til að grípa tækifærið og tjá mig aðeins um forritunar- og tölvunarfræðinám - eins og ég lít á það.*

Flestir þeir sem hyggja á tölvunarfræðinám hafa áhuga á að læra forritun. Slíkt er mjög eðlilegt. Þekkt er að færir forritarar eru eftirsóttir starfskraftar og að tölvunarfræðinám er mögulega besta leiðin sem fullorðið fólk hefur til að kynnast forritun.

En færri virðast gera sér grein fyrir því að tölvunarfræðinám er ekki það sama og forritunarnám.

Tölvunarfræði er fræðigrein, kennd á háskólastigi. Forritun er á hinn bóginn líkari iðngrein en fræðigrein. Oft er talað er um tengsl tölvunarfræðingsins og stærðfræðingsins, en mér finnst forritarinn vera líkari smiðnum.** Smiðurinn og forritarinn eru sérhæfðir starfskraftar með sérþekkingu sem hjálpar þeim að leysa vandamál. Það er það sem þeir gera. Forritun ervinna.

En hvar passar tölvunarfræðingurinn inn í þessa analógíu? Tjah, hann er svona... smíðafræðingur. Hann veit sko allt um það hvernig naglabyssa virkar. Hann kann 10 mismunandi leiðir til að búa til hallamál.

Hljómar það eins og eftirsóttur, gagnlegur starfskraftur? Það er svosem gott að einhver er með þetta á hreinu, svo við fáum nú betri naglabyssur, en þegar maður þarf að fá einhvern til að laga hjá sér gluggakarminn - þá held ég að maður vilji bara góðan smið.

Engu að síður, þá streyma nemendur inn í tölvunarfræðideildina til að læra forritun, sem er einfaldlega ekki það sem verið er að kenna. Athugið að þetta er ekki gagnrýni á námið. Tölvunarfræði er mikilvægt, áhugavert fag sem á athygli verðskuldaða. En það er ekki starfsnám í forritun.

Hvað er þá til ráða fyrir nemandann sem óður og uppvægur vill læra forritun án þess að hafa sérstakan áhuga á tölvunarfræði? Nokkrir möguleikar eru í stöðunni.

  • Skrá sig bara samt í tölvunarfræði. Ég hélt því fram í upphafi að tölvunarfræðinám væri mögulega besta leiðin til að læra forritun sem nemendum á háskólastigi stendur til boða hér á landi. Þekking á tölvunarfræði myndar nefnilega gríðargóðan grunn til þess að læra forritun. Þeir sem hafa áhuga á að læra forritun munu græða á því að læra undirstöður hennar í tölvunarfræðinámi. Sérstaklega munu þeir græða á því að eyða mörgum árum með nemendum í sömu sporum. Það sem meira er - atvinnurekendur vita þetta og taka því almennt mikið mark á umsækjendum með tölvunarfræðigráður.
  • Skrá sig í starfsnám í forritun. Þetta er mér til vitandi einungis kennt hér á landi í Tækniskólanum í Reykjavík***. Það nám er þó á framhaldsskólastigi. Það skólastig er auðvitað kjörið fyrir þá sem ekki hafa lokið stúdentsprófi, en eldri nemar missa margir af tækifærinu til að læra af samnemendum sínum vegna munsins sem er á félagslegum þroska og námsgetu. Einnig hef ég heyrt úr ýmsum áttum að atvinnurekendur taki minna mark á nemendum sem útskrifaðir eru af tölvubraut á framhaldsskólastigi heldur en þeim sem útskrifaðir eru úr tölvunarfræði á háskólastigi. Góðir nemendur fá vinnu, en pappírinn virðist því miður vera verðminni en sá fyrrnefndi.
  • Stunda sjálfsnám eða vefkúrsa. Vefverkefni á borð við Code Academy (grunnur) og Coursera (háskólastig) hafa gert það mun auðveldara fyrir forvitna að fá nasasjón af forritun og Github auðveldar sjálflærðum að koma sér á framfæri. Engu að síður er þetta strembið ferli sem afar fáir komast í gegnum svo vel sé - það gefur auga leið að erfitt sé að öðlast reynslu á við margra ára nám og samskipti við jafningja upp á eigin spýtur.

Ég vil ekki beina fólki frá því að læra tölvunarfræði eða forritun. En ég vona að ef að þú eða einhver sem þú þekkir er í vafa um hvort að tölvunarfræðinám sé rétta námið, þá hafirðu örlítið meira til að byggja ákvörðunina á.

* Reynsla mín af tölvunarfræðinámi miðast við HÍ. Ég hef heyrt á það minnst að HR bjóði upp á tölvunarfræðinám sem frekar líkist starfsnámi og að tölvunarstærðfræðin sem þar er kennd líkist frekar tölvunarfræði í HÍ. Caveat emptor.
** Ég er ekki smiður, ég lendi í vandræðum með að festa barnalæsingar. Biðst afsökunar ef ég gef í skyn ranga hluti um starf þeirra.
*** Ég er ekki óháður hér.