Ernir.net home

Ernir writes

on computers and society, apparently.

Um brjóstin á Jennifer Lawrence

(Upprunalegur Facebook-póstur)
(Grein Pressunnar)

Flestir þeir sem fylgjast með internetinu hafa tekið eftir því að nýlega láku út nektarmyndir af herskara leikkvenna.

Líkt og flestir samfélagslegir viðburðir vil ég meina að þetta gefi tækifæri til að kynnast okkur sjálfum aðeins betur.

Persónulega finn ég fyrir forvitni. Þessar myndir eru komnar út, ég gæti fundið þær á mínútunni. Myndirnar gætu veriðáhugaverðar og leikkonurnar myndu aldrei komast að því. Á ég ekki bara að kíkja?

Nei, þetta er ekki alveg svo einfalt.

Þetta eru ekki myndir sem teknar voru fyrir mig. Konurnar gáfu ekki samþykki fyrir því að myndunum væri dreift. Bara alls ekki. Myndunum, myndum af þeirra allra nánustu augnablikum, var stolið og þær settar á opið internetið. Konurnar geta ekki náð í þær til baka. Myndirnar verða þarna að eilífu.

Og ég sem hélt að það væri slæmt þegar ljót djammmynd af manni er tögguð á Facebook.

Hver sá sem myndunum stal er ekki einhver hetjuhakkari sem opinberar upplýsingar í almannaþágu. Hann er bara hreinn og klár kynferðisafbrotamaður. 

Og fyrir mitt leyti langar mig ekki til að taka þátt í þeim glæp. Mér finnst það ekki sexí að vita það að konan á myndinni myndi gera allt í heiminum til að hindra mig frá því að sjá hana.

Ég get ekki ráðið neinu um upplifun kvennanna af þessu. 

En ég get ráðið hvaða skilaboð ég sendi. Það að horfa á myndirnar myndi senda skilaboðin "ég kann að meta þetta framtak", jafnvel þó að enginn myndi lesa þau skilaboð nema ég sjálfur.

Þess vegna ætla ég ekki að skoða myndirnar. Ég ætla að senda eftirfarandi skilaboð í staðinn:

Fokk jú, ógeðslega hakkarakríp. Ég vil ekki að þetta gerist aftur og ég vona innilega að sem fæstir taki þátt í þessu ofbeldi núna.