Ernir.net home

Ernir writes

on computers and society, apparently.

Stundum er gaman að vera kennari

(Upprunalegur Facebook-póstur)

Stundum er gaman að vera kennari - en ekki í dag.

Í dag er staðan sú að stærðargráðumunur er á þeim launabreytingum sem framhaldsskólakennarar gera kröfu um og þeim launabreytingum sem ríkisstjórnin býður upp á. Frá mínum bæjardyrum séð eru fylkingarnar líklegri til að faðmast þvert yfir Almannagjá heldur en að ná sáttum fyrir vikulok.

Þegar svona langavitleysa er spiluð kemur auðvitað að því að síðasta spilið er sett fram. Hér er þetta spil margumrætt verkfall. Ég geri ráð fyrir að þurfa að taka þátt í kosningu um hvort farið verði í verkfall á næstunni. 

Sem sagt, ég stend frammi fyrir valkostum A og B.

Valkostur A: Ég segi já við verkfalli. Þetta gefur til kynna að staðan sé algjörlega óviðunandi, að ég sé búinn undir það að leggja niður störf frekar en halda áfram við óbreyttar aðstæður. Aðstæðurnar eru vissulega óviðunandi og þetta er sterkt og gott merki - en hér eru gallar. 

  • Þetta klúðrar kennslustarfi annarinnar. Ég þekki af eigin reynslu að það setur allt á annan endann þegar ég verð veikur í tvo daga, margra vikna verkfall myndi gera út af við önnina. Sorrí að þið náðuð ekki einingunum ykkar, krakkar. Hér voru prinsippmál á ferðinni!
  • Verkfallssjóður hefur verið vanræktur frá hruni, kennarar yrðu svo gott sem tekjulausir meðan á verkfalli stendur.
  • Ég hef nær enga trú á að eyra hæstvirts menntamálaráðherra sé næmt fyrir einhverju verkfallsvæli í skrílnum. Sjálfur bý ég mitt eigið eyra undir að hlýða á tónverkin gamalkunnu "Ég hef samúð en það eru engir peningar til" og "Ríkið stendur höllum fæti" á meðan verkfallið dregst fram að prófum.

Valkostur B: Ég segi nei við verkfalli. Þetta gefur til kynna að ég sé sáttur við þau kjör sem boðið er upp á. Sem ég er ekki, en það er þó betra að einhver kennsla sé í gangi en engin, það er betra að kenna við óbreyttar aðstæður út önnina heldur en ekki.
En hér eru líka gallar. Ástandið í framhaldsskólum er ekki í lagi. Launakúltúrinn sem hefur undið upp á sig síðan 2006 (já, það hentaði ekki heldur að hækka launin þá) hefur dregið dilk á eftir sér. Bremsuförin sjást ágætlega frá kennaraborðinu.

  • Nýliðun í stéttinni er u.þ.b. engin. Ég er 26 ára, í yngsta prósenti kennara eða svo. Það þarf sérstaka gerð af hálfvita (sbr. undirritaðan) til að sækja um þessar stöður. Risastórir hópar kennara stefna með jöfnum hraða á eftirlaunaaldurinn. Fjöldi útskrifaðra kennara hefur hrunið eftir hrun (hoho). Kennaraskortshengiflugið er beint framundan og enginn er á bremsunni.
  • Í mínum skóla hefur verið unnið á móti launakerfinu með því að bæta við yfirvinnutímum, sem auðvitað tengist því að fjölgun nemenda síðustu ár hefur ekki verið í nokkru hlutfalli við fjölgun kennara (og því að grunnlaunin eru ekki fólki bjóðandi). Sjálfur er ég í 150% starfshlutfalli - sem er of mikið. Hver vinnur 60 tíma vinnuviku á fullum afköstum? Augljóslega gæti ég sinnt starfi mínu betur færi verkefnafjöldinn niður um þriðjung. Ég veit ekki hversu margir krakkar hafa fallið í áföngum og/eða hrökklast úr námi vegna þess að ég gat ekki sinnt þeim jafn vel og ég ætti að geta. En mér dettur ekki í hug að fjöldi þeirra sé 0. Launaumhverfi kennara er að koma niður á nemendum. Í dag. Núna. 

Svo. Í valkosti A felst að ég styðji þá aðgerð draga nemendur með okkur kennurum niður í verkfallsnámurnar. Það verður ömurlegt. Bestu nemendurnir munu líklegast ná sér, þeir sem eru verst settir eiga einfaldlega eftir að heltast úr lestinni. Það er séns á að við rekumst á gull. Líklegast erum við samt bara að berja haus við stein.

Í valkosti B felst að ég styðji uppgjöf gagnvart núverandi stefnu. Við höldum áfram að kenna, en við viðurkennum að ekkert er að fara að skána. Þvert á móti mun ástandið versna, þó ekki sé litið til lengra tímabils en tveggja ára. Kennslustarf mun aldrei leggjast af, því starfið þarf alltaf að vinna. Nemendurnir fá bara verri kennslu. 

Verkfall, ekki verkfall. Steinn, sleggja. Á ég kannski bara að hætta þessu?